Eyðibyggðin

Höfundur: Örn Friðriksson

Textahöfundur: Friðrik Dagur Arnarson

Ég hlýði á himins vinda,
sem hafsins bárur kyssa
og steita á hússins stafni,
sem stendur autt og hljótt.
Leiki tærra linda
ég lít og spyr mig hissa
hví samtíð höppum hafni
því hingað er ei sótt.
því nú er allt í eyði
og engin, glóð í hlóðum,
engin, börn í bóli,
né bítur kind á hóli
Enginn vitjar veiði
þar vaxa blóm í slóðum.
Allt það sem þar Guð gaf
er gleymt við ysta haf.

Ég lít um vog og víkur,
sem voru byggðar forðum,
hér segir fátt af flestu,
sem festi hérna bú.
Þó sýnist ranninn ríkur
með rausnarkrás á borðum
skiptir mann ei mestu
að metta bónda og hjú.
Samt reynist bágt að búa,
við brim á ystu ströndum.
Eyða í einsemd langri
ævigöngu strangri.
Engir aftur snúa
sem öðrum kynnast löndum
með minna strit sem Guð gaf
en gefst við ysta haf.

Í friði og fuglakvaki
má fornar slóðir líta,
sem gráta gamla daga
og egenginn sérhvern mann.
Ég hverf á braut, að baki
er ból sem engir nýta
Hér er allt orðið saga
sem ekki nokkur kann.
Um haf og strönd og hlíðar
mun hugur tíðum reika
þá hlekkja sál og hjarta
við heimskautsnóttu bjarta.
Við sjáumst kannski síðar
og saman munum leika
í sólskini sem guð gaf
af gnægð við ysta haf.